Eignarhaldsfélagð Fons er orðinn stærsti hluthafinn í sænska lággjaldaflugfélaginu FlyMe, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Stjórnendur Fons, þeir Pálmi Haraldsson og Jóhannes Kristinsson, staðfestu þetta í samtali við Viðskiptablaðið í gær.

Eignarhlutur Fons í félaginu er í kringum 20%, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Björn Olegaard, stjórnarformaður FlyMe, sagði í samtali við DowJones Newswires að félagið hyggist vaxa með yfirtökum í byrjun næsta árs. "Við erum að skoða sænsk og alþjóðleg fyrirtæki," sagði Olegaard. Hann tók þó fram að félagið eigi ekki í yfirtökuviðræðum eins og stendur en hann vonast til að félagið muni hefja viðræður við ákveðin félög bráðlega.

FlyMe hyggst auka hlutafé í félaginu til að fjármagna yfirtökur, ásamt því að sækja fjármagn á lánamarkaði. Olegaard segir að fjárfestingageta FlyMe sé um einn milljarður sænskra króna (7,5 milljarðar íslenskra króna).

Fons samþykkti nýlega að selja norræna lággjaldaflugfélagið Sterling Airlines til FL Group fyrir 15 milljarða króna. Iceland Express, sem er í eigu Fons, hefur verið sett í sölumeðferð hjá Kauþingi banka og er félagið verðmetið á bilinu þrír til fjórir milljarðar króna.

Jóhannes Georgsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Iceland Express, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri FlyMe. Tap hefur verið af rekstri FlyMe, líkt og af Sterling og var af rekstri Iceland Express. Viðsnúningur hefur þó orðið á rekstri Iceland Express og áætlað er að um 300 milljóna hagnaður verði af félaginu á þessu ári, miðað við 300 milljóna tap árið 2004.