Unnið er að sölu á ferðaskrifstofunni Ferðaskrifstofu Íslands. Félagið er í söluferli hjá Arctica Finance og verður salan kynnt nánar síðar í vikunni. Undir ferðaskrifstofunnni eru vörumerkin Úrval Útsýn, Plúsferðir og Sumarferðir auk ferðaskrifstofan Hekla Travel í Danmörku.

Hjá ferðaskrifstofunni starfa um 30 manns.

Gunnar Jóhannesson hjá fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance segir stutt síðan undirbúningur að sölu ferðaskrifstofunnar hófst. Söluferlið er hefðbundið og í tveimur áföngum.

Ferðaskrifstofa Íslands er í eigu eignarhaldsfélagsins Academy S.a.r.l., sem skráð er í Lúxemborg. Eigandi Academy er svo Nupur Holding SA, sem jafnframt er skráð í Lúxemborg. Eigandi Nups er Fengur og er aðaleigandi þess Pálmi Haraldsson. Undir Fengi er m.a. flugfélagið Iceland Express. Ferðaskrifstofan lenti í rekstrarerfiðleikum í kjölfar hrunsins haustið 2008 og keypti félag Pálma hana í byrjun árs 2009.