Pálmi Haraldssonn og Jóhannes Kristinsson, sem áttu fjárfestingafélagið Fons í gegnum félagið Matthews Holding SA, voru í dag ásamt félaginu Matthews Holding, sýknaðir af ríflega fjögurra milljarða króna riftunarkröfu í dag. Þrír dómar í málum þrotabúsins gegn Pálma hafa þegar verið birtir á vefsíðu Héraðsdóms Reykjavíkur, en dæmt var í fimm riftunarmálum í dag.

Stærsta krafan hljóðaði upp á 4,18 milljarða króna en um var að ræða arðgreiðslu frá Fons til Matthews Holding þann 14. september. Óumdeilt var í málinu að dregið var á lánasamning Fons við Landsbanka Íslands til að standa straum af arðgreiðslunni. Hagnaður Fons eftir skatta árið 2006 var samkvæmt ársreikningi 26,9 milljarðar króna.

Skiptastjóri Fons leit svo á að arðgreiðslan hafi verið ólögmæt, m.a. vegna þess að ársreikningur Fons hafi verið verulegum annmörkum háður og geti því ekki hafa verið grundvöllur úthlutunar og greiðslu arðs úr félaginu. Því yrði að líta á greiðsluna sem riftanlega gjöf til Matthews Holding og eigenda þess.

Í dómnum er hins vegar vísað til nokkurra álitsgerða sem bera það með sér að eigið fé Fons og Fons samstæðunnar hafi verið töluvert þegar ákvörðun um arðgreiðslu var tekin og þegar greiðslan var innt af hendi. Því þyki ekki uppfyllt skilyrði gjaldþrotalaga um riftun greiðslunnar. Þá fellst dómurinn ekki á að ársreikningur Fons hafi verið þeim annmörkum háður að hann gefi tilefni til riftunar.

Fjárhæðir í hinum málunum tveimur voru öllu lægri, annars vegar fimm milljóna greiðsla Fons til lögfræðiskrifstofunnar Landslaga og hins vegar nokkrar greiðslur til Chalk Investment Ltd. sem samtals námu 47,5 milljónum króna. Pálma var einum stefnt í báðum þessum málum, en í báðum var hann sýknaður.