Hæstiréttur staðfesti í gær sýknudóm héraðsdóms í máli þrotabús Fons hf. gegn Pálma Haraldssyni, Jóhannesi Kristinssyni og Matthews Holding S.A. Vildi þrotabúið fá 4,2 milljarða króna arðgreiðslu greidda til baka á þeim grundvelli að annmarkar hefðu verið á framkvæmd úthlutunar arðsins. Hæstiréttur taldi að engu breytti um lögmæti ákvörðunarinnar um arðsúthlutun þótt ekki hefði komið fram berum orðum í fundargerð að tillaga þess efnis hefði verið gerð af stjórn félagsins eða með samþykki hennar.

Þá taldi Hæstiréttur sýnt fram á að nægur hagnaður hefði verið af rekstri félagsins árið 2006 og yfirfærður hagnaður frá fyrri árum fyrir þeim arði sem var úthlutað á fundinum. Að lokum var ekki talið að þrotabú Fons hefði leitt í ljós að svo miklum arði hefði verið úthlutað úr félaginu að andstætt hefði verið góðum rekstrarvenjum með tilliti til fjárhagsstöðu samstæðunnar.