Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins vill Pálmi Haraldsson fá að minnsta kosti 800 milljónir króna fyrir rekstur Ferðaskrifstofu Íslands. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá þann 10. september sl. hefur félagið verið sett í söluferli hjá Arctica Finance. Farið var fram á 500 milljóna króna fjárfestingargetu. Tilboðum var skilað inn fyrir rúmri viku síðan.

Gunnar Jóhannesson hjá fyrirtækjaráðgjöf Arctica staðfesti að búið væri að ákveða hverjir fengju að halda áfram í söluferlinu en vildi ekki upplýsa hverjir það væru. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er um að ræða þrjá aðila. Þar á meðal er hópur sem inniheldur núverandi stjórnendur Ferðaskrifstofunnar.

Pálmi vildi ekki tjá sig um málið en sagði þó, „það er kannski aðeins norðar en það,“ þegar blaðamaður spurði um fyrrnefnda upphæð.

Ferðaskrifstofa Íslands er í eigu eignarhaldsfélagsins Academy S.a.r.l., sem skráð er í Lúxemborg. Eigandi Academy er svo Nupur Holding SA, sem jafnframt er skráð í Lúxemborg. Eigandi Nups er Fengur og er aðaleigandi þess Pálmi Haraldsson. Í samtali við Viðskiptablaðið um miðjan september sagðist Pálmi vilja einbeita sér að rekstri Iceland Express og leiðakerfi félagsins. Iceland Express keypti Ferðaskrifstofu Íslands í byrjun árs 2009 og að sögn Pálma jók hann hlutafé félagsins um 750 milljónir króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.