*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 2. ágúst 2021 19:11

Pamelu haldið utan matseðils

Kjúklingastaðurinn Stél var opnaður í Vesturbænum á dögunum undir sama þaki og Smass. Yfirkokkur Smass átti hugmyndina.

Ritstjórn
Magnús Jökull Guðmundsson kom inn sem yfirkokkur á Smass með þá hugmynd að fara í kjúklinginn.
Aðsend mynd

Kjúklingastaðurinn Stél var opnaður á Ægisíðunni á dögunum og er hann rekinn undir sama þaki og hamborgarastaðurinn Smass. Stél leggur áherslu á „Hot chicken", rótgróna tegund af djúpsteiktum kjúklingi frá Nashville í Bandaríkjunum, sem hefur náð mikilli útbreiðslu síðastliðin ár en fram til þessa ekki náð að skjóta rótum hér á landi. „Hot chicken" er þannig sérstaða Stéls á meðal íslenskra kjúklingastaða.

Guðmundur Óskar Pálsson, framkvæmdastjóri og einn eigenda, segir að á bak við Stél og Smass séu að mestu leyti sömu rekstraraðilarnir og þeir nýti sama starfsfólkið á báðum stöðum.

„Við fórum í gang með Smass í desember og Maggi, Magnús Jökull Guðmundsson, kom fljótlega inn í þetta með okkur og tók við sem yfirkokkur staðarins. Hann hafði alltaf þann draum að opna svona „fried chicken" veitingastað og leyfði okkur að smakka þetta hjá honum, þannig að við spurðum hvort hann vildi ekki bara koma inn í Smass og svo myndum við vinna okkur yfir í það að búa til nýtt konsept, svona til hliðar," segir Guðmundur.

Guðmundur og Magnús hafa báðir búið í Bandaríkjunum og komust upp á bragðið með djúpsteiktan kjúkling þar ytra.

„Maggi  átti  í raun grunnhugmyndina að þessu „fried chicken" konsepti, en svo fórum við aðeins að prófa okkur áfram yfir í „hot chicken" sem er feikivinsælt þarna úti, sérstaklega í LA og þar um kring. Svo þegar við töldum okkur vera komna með algjöra neglu ákváðum við að fara á fullt með þetta og opna Stél."

Kúnninn velur hitastigið

Kjúklingurinn er marineraður upp úr sérstakri kryddblöndu. „Ég stalst nú einhvern tíma til þess að skoða listann hans Magga yfir kryddin, þetta eru einhverjar 13 kryddtegundir ef ég taldi rétt. Eftir marineringu er kjúklingnum velt upp úr hveitiblöndu áður en hann fer í djúpsteikingarpottinn. Kúnninn getur svo valið hvort það er smá hiti, mikill hiti eða óþægilega mikill hiti, en svo er sú allra heitasta utan matseðils, við köllum hana Pamelu Anderson 1995 heita og hún rífur mjög vel í," segir Guðmundur kíminn.

Spurður hvort viðskiptavinurinn þurfi ekki hreinlega mjólkurglas með segir hann það eiginlega vera nauðsynlegt með þessu allra heitasta.

„Við létum einn fá súrmjólk um daginn og höfum aðeins verið að velta því fyrir okkur hvort við ættum að kaupa litlu mjólkurfernurnar sem maður fékk í grunnskóla í gamla daga og láta þær fylgja með. Ég held að það sé eiginlega nauðsynlegt fyrir flesta, nema þessa allra hörðustu."

Það er þó ekki svo að réttirnir séu eingöngu fyrir þá sem vilja mat sem rífur í. „Kúnninn getur valið hitastigið á öllu á matseðli og það er líka hægt að velja að fá réttina án hita, þá kryddum við réttinn með kryddblöndu án hita. Eina undantekningin á því er „hot chicken sandwich", en henni er ætlað að vera heit þannig að það verður alltaf grunnspæs í henni. Þau sem vilja ekki hita geta farið í kjúklingasamlokuna með ponzu majói eða BBQ beikon kjúklingasamlokuna," segir Guðmundur og bætir við að sjálfur fái hann sér samloku með hita: „Þá fær maður svona spæs en þetta er samt þægilegt. Þetta er svona eins og ef þú ferð á indverskan eða taílenskan veitingastað og færð þér spæsí rétt, alveg viðráðanlegt fyrir flesta. Við erum auðvitað ekki að reyna að drepa neinn, þess vegna er henni Pamelu okkar haldið utan matseðils," segir hann hlæjandi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér