Danska skartgripaverslunarkeðjan Pandora opnar nýja risaverslun á Oxfordstræti í Lundúnum í næsta mánuði. Nýja verslunin verður stærsta verslun Pandoru í heiminum og segja forsvarsmenn verslunarinnar að hönnunin marki tímamót.

Verslunin verður 200 fermetrar og á tveimur hæðum. Hún verður staðsett á milli BondStreet og Marble Ach. Á neðri hæðinni verður sérstakt fundarrými þar sem hægt verður að halda blaðamannafundi og aðra sérstaka viðburði.

„Lundúnir eru höfuðborg tísku í heiminum og verslun okkar á Oxford Street mun bera vott um að við erum leiðandi skartgripaframleiðandi í heiminum. Við höfum viljað opnað svona verslun allt frá upphafi og við höfum unnið að þessu í fimm ár. Við erum mjög ánægð með að draumur okkar er að verða að veruleika,“ er haft eftir Peter Andersen, forstjóra Pandoru í Vestur-Evrópu, á vefnum Retail Bulletin .

FIH bankinn, sem eitt sinn var í eigu Kaupþings, á stóran hlut í Pandoru í gegnum Axcel fjárfestingasjóðinn. Þegar Seðlabankinn tók FIH yfir og seldi síðar var söluverðið að hluta háð gengi bréfa í versluninni.