Arðsemi eigin fjár af kjarnastarfsemi Arion banka hefur dregist saman um tæp 4% frá árinu 2015 til 2017. Á síðasta ári var arðsemiskrafa bankans tæp 5%, eða 7% undir arðsemiskröfu. Kostnaðarhlutfall reglulegs rekstrar bankans hækkaði úr 53% árið 2015 í 59% árið 2017. Þetta er meðal þess sem kemur fram í umfjöllun Markaðarins .

Talið er að Kaupþing muni í mesta lagi selja fjórðungshlut í Arion banka og það stafar fyrst og fremst af áherslu stjórnvalda um að Kaupþing hámarki fyrst og fremst virði eignarhlutar síns í bankanum. Þannig verði tryggt að sem hæst verð fáist fyrir hlutinn. Gert er ráð fyrir að Kaupþing muni vera áfram í hlutahafahóp Arion banka næstu 18 mánuðina og með þeim hætti verði reynt að auka markaðsvirði bankans. Ríkið hefur gífurlegra hagsmuna að gæta, þar sem að því hærra verð sem fæst fyrir hlut Kaupþings, þeim mun meira stöðugleikaframlag rennur til ríkisins.

Verðleggja lágt til að laða að erlenda fjárfesta

Fjárfestum býðst að kaupa bréf í Arion banka á 0,6 til 0,7 sinnum bókfært eigið fé bankans. Það er mun lægra en búist var við og er einnig talsvert hagstæðara en verðið í síðustu viðskiptum með bréf bankans. Samkvæmt viðmælanda Markaðarins, var talið nauðsynlegt að hafa gengið svona lágt til þess að auka áhuga erlendra fjárfesta á útboðinu. Þetta lága gengi hefur vakið athygli fjárfesta, erlendra sem innlendra og endurspeglast það í þeirri staðreynd að pantanabók fyrir um fjórðungshlut í bankanum var orðin full í gær.

Að sögn Snorra Jakobssonar, greinanda hjá Capacent, í samtali við Markaðinn, þá draga þættir eins og íþyngjandi lög og reglur, ekki síst bankaskatturinn, hátt eiginfjárhlutfall og takmarkaðir vaxtarmöguleikar úr söluvirði bankans.