Stærri pöntunum hefur farið fjölgjandi hjá Marel og er það til marks um að markaðsaðstæður, s.s. í kjúklingaiðnaði, fari batnandi að mati forsvarsmanna fyrirtækisins. Fram kemur í uppgjöri félagsins fyrir annan ársfjórðung að pantanabókin hafi staðið í 125,3 milljónum evra í lok júní samanborið við 76,1 milljón evra á sama tíma í fyrra.

Þetta var sjötti ársfjórðungurinn í röð sem nýjar pantanir eru umfram afgreiddar pantanir. Marel hagnaðist um 117 þúsund evrur á fjórðungnum samanborið 17,3 milljóna evra hagnað fyrir ári. Tekjur Marelssamstæðunnar af kjarnastarfsemi námu 136,1 milljón evra og jukust um 27% á milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT, leiðrétt fyrir einskiptiskostnaði) var 15,1 milljón evra, eða 11,1% af tekjum. EBIT-markmið hljóðar upp á 10-12% af veltu fyrir árið í heild.