Pantanir hjá þýskum verksmiðjum drógust saman um 5,7% í ágúst frá mánuðinum á undan og er það mesti samdráttur á þessu sviði frá því árið 2009, að því er segir í frétt Bloomberg. Hagfræðingar höfðu spáð 2,5% samdrætti. Það er til marks um það hversu sveiflukenndar þessar tölur eru að pantanir jukust um 4,9% í júlí.

Í frétt Bloomberg segir að minnkandi bjartsýni grafi nú undan viðsnúningi í þýska hagkerfinu, sem dróst saman um 0,2% á öðrum ársfjórðungi.

Áhætta tengd alþjóðastjórnmálum, einkum ástandinu í Úkraínu, hefur gert það að verkum að fyrirtæki fara sér nú mjög hægt í fjárfestingum, þrátt fyrir að aðstæður til fjármögnunar séu góðar, að sögn Christian Schulz, hagfræðings hjá Berenberg Bank.