British Airways hefur lagt inn pöntun á tólf Airbus A380 risaþotum og tuttugu og fjórum Boeing 787 þotum. Pöntunin er viðbót við þær sjö risaþotur frá Airbus og þær átján Boeing 787 þotur sem félagið hefur þegar samið um kaup á. Jafnframt hefur verið skrifað undir samning um kaup á Rolls-Royce mótorum fyrir nýju þoturnar segir í tilkynningu BA.


Þoturnar, sem koma inn í reksturinn á árunum 2010 og 2014, munu leysa af 34 eldri vélar sem starfræktar eru á löngum flugleiðum félagsins. Flugvélapantanirnar nú munu gera British Airways kleift að auka sætaframboð um 4% og sveigjanleika í rekstrinum í samræmi við ástand á hverju markaðssvæði.

Nýju þoturnar eru umhverfismildari en núverandi flugfloti, þar sem eldsneytisnotkun þeirra er umtalsvert minni, þær eru hljóðlátari og útblástur koltvíoxíðs er einnig minni en frá þeim vélum sem nú eru í rekstri. Útblástur Airbus A380 á hvert sæti er um 17% hreinni en frá Boeing 747-400 vélum félagsins og um 30% hreinni frá hinum nýju Boeing 787 vélum heldur en frá núverandi Boeing 767 vélum.

Willie Walsh, forstjóri British Airways, segir í tilkynningu að hér sé um að ræða stærstu einstöku flugvélapöntun félagsins í níu ár, sem skapi félaginu mikil sóknarfæri.

?Þessar nýju þotur setja ný viðmið þegar litið er til umhverfisáhrifa hvað varðar útblástur koltvíoxíðs, hljóðmengun, eldsneytisnýtingu og aukin loftgæði á flugvöllum. Þessar þotur munu hafa mikil áhrif á markmið félagsins að auka eldsneytisnýtingu um 25% á árunum 2005 til 2025. Hvað varðar hljóðmengun þá framleiða bæði A380 og B787 þoturnar einungis fjórðung þess hávaða á Heathrow, sem B747-400 þoturnar gera í dag,? segir Willie Walsh.

Willie Walsh segir að nýju þoturnar séu, ásamt nýrri flugstöð á Heathrow og nýjum innréttingum á viðskiptafarrými, mikilvægur hlekkur í þeim markmiðum félagsins að veita viðskiptavinum sínum áfram bestu mögulegu þjónustuna, því einungis þannig sé unnt að viðhalda ánægju þeirra sem kjósa að fljúga með British Airways.

A380 þotunum er einkum ætlað að auka afkastagetu á núverandi flugleiðum, sem eru hvað fullbókaðastar, aðallega til fjarlægra heimshluta. Boeing 787 vélunum er hins vegar einkum ætlað að auka flugtíðni til núverandi áfangastaða og sinna nýjum áfangastöðum.


British Airways mun skoða áfram bestu mögulegu kostina varðandi val á þotum sem heppilegastar eru til að taka við núverandi flota B747-400 véla sem nú eru í notkun. Þær velar sem koma til greina eru B787-10, B777-300 ER og A350XWB. Félagið er nú með 114 þotur á flugleiðum til fjarlægra áfangastaða; 57 Boeing 747-400 vélar, 43 Boeing 777 og 14 Boeing 767 vélar.