Viðræður ráðamanna í Grikkaland við sendinefnd frá Evrópusambandinu, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og hópi eigenda grískra ríkisskuldabréfa runnu út í sandinn í gærkvöldi. Vonast var til að viðræðurnar myndu skila einhverjum árangri að lausn í skuldakreppu Grikkja sem standa frammi fyrir risastórum gjalddaga á lánum í næsta mánuði. Viðræðum var frestað þar sem ekki náðist samkomulag um þriggja milljarða evra viðbótar niðurskurð á ríkisútgjöldum.

Aþenuborg logaði í mótmælum í gær þegar ríkisstarfsmenn lögðu niður störf og létu í sér heyra vegna fyrirhugaðs niðurskurðar. Flestir erlendir fjölmiðlar sem fjallað hafa um málið eru hins vegar á því að samhliða því sem draga þurfi úr grískum ríkisumsvifum þá verði kröfuhafar Grikkja að leggja sitt af mörkum og sætta sig við að fá minna upp í kröfur en þeir hafi áður sætt sig við.

Í netútgáfu breska dagblaðsins Guardian af málinu segir að Lucas Papademos, forsætisráðherra Grikkland, og aðrir sem að viðræðunum komi séu með drög að samkomulagi upp á 15 blaðsíður í höndunum og vonist ráðherrann til þess að geta lagt það fram á fundi með fjármálaráðherrum evruríkjanna í vikulokin.