Papco, stærsta íslenska framleiðslufyrirtækið í hreinlætispappír, hefur opnað verslun og söluskrifstofu í Sjafnarhúsinu á Akureyri.

Þrír starfsmenn starfa hjá Papco á Akureyri en í heildina starfa nú um 30 manns hjá fyrirtækinu við framleiðslu, sölu og þjónustu á hreinlætispappír og hreinsefnum.

„Markmiðið með opnun verslunar og söluskrifstofu á Akureyri er að sinna betur fyrirtækjum um allt Norðurland sem eru í viðskiptum við okkur. Við erum að auka þjónustustigið og viljum vera í meiri nálægð við markaðinn og okkar viðskiptavini,“ segir Þórður Kárason, framkvæmdastjóri Papco í tilkynningu frá félaginu.

Hann segir fyrirtækið leggja mikla áherslu á gæði og stöðuga vöruþróun til að mæta ströngustu kröfum markaðarins. „Papco ýtir undir íslenskan iðnað sem er mjög jákvætt. Fyrirtækið hefur rutt sér til sums á stórnotendamarkaði og aukið vöruvalið til að mæta þörfum viðskiptavina sinna,“ segir Þórður sem er borinn og barnfæddur Akureyringur.

„Það er vissulega ánægjulegt að hefja rekstur í sínum gamla heimabæ enda eru ræturnar mjög sterkar. Þetta er eiginlega gamall draumur sem er orðinn að veruleika,“ segir Þórður.

„Það eru mikil tækifæri hér fyrir norðan. Meðal okkar viðskiptavina okkar eru mörg sveitafélög og ríkisstofnanir allt frá Hrútafirði austur í Mývatnssveit,“ segir Fannar Ágústsson, svæðisstjóri Papco á Norðurlandi. „Ég flutti aftur heim til Akureyrar til að fylgja þessu verkefni eftir. Það er gaman að geta flutt störf frá Reykjavík til Akureyrar og skemmtilegt að byggja upp fyrirtækið hér fyrir norðan. Ég finn fyrir mikilli velvild í okkar garð og það eru spennandi tímar framundan,“ segir Fannar og bætir við að það hafi verið mjög annasamt í vinnunni síðan Papco opnaði  í Sjafnarhúsinu sl. föstudag.

Þórður segir að Papco taki tillit til umhverfismála í allri sinni starfsemi og tryggir að öllum lagalegum kröfum á sviði umhverfismála sé fullnægt. Engin kemísk efni eru notuð í framleiðsluferli PAPCO og allur ónothæfur pappír sem fellur til við framleiðsluna er sendur úr landi til endurvinnslu.

„Fyrirtækið leitast við að lágmarka umhverfisáhrif starfsemi sinnar og leggur mikla áherslu á sjálfbæra þróun. Hráefnið sem fyrirtækið notar til framleiðslu er vottað með viðurkenndum umhverfismerkjum frá birgjum. Má nefna vottanir eins og Evrópublómið og FSC sem staðfesta að hráefnið kemur frá nytjaskógum og trjáræktarbúum þar sem 10 trjám er plantað fyrir hvert tré sem fellt er,“ segir Þórður ennfremur.