Hlutabréf í eigu sjö helstu bankamanna á Wall Street hafa lækkað sem nemur einum milljarði Bandaríkjadala (67 milljörðum íslenskra króna) á verðfalli á fjármálamörkuðum, samkvæmt frétt sem birtist í Sunday Times.

Í Hálf fimm fréttum Kaupþings segir að Times hafi til hliðsjónar upplýsingar frá Bandaríska fjármálaeftirlitinu (SEC) yfir eignir þessara bankamanna í þeim fjármálafyrirtækjum sem þeir stýra eða stýrðu. Þetta eru þeir James Canyne, sem yfirgaf forstjórastól Bear Stearns í síðasta mánuði, Lloyd Blankmain, stjórnarformaður og forstjóri Goldman Sachs, John Mack, stjórnarformaður og forstjóri Morgan Stanley, Chuck Prince, fyrrverandi forstjóri Citigroup, og þeir Richard Fuld hjá Lehman Brothers, Kenneth Lewis hjá Bank of America og James Dimon sem fer fyrir JP Morgan Chase.

Enginn þessara bankamanna kemst með tærnar þar sem Cayne er með hælana. Cayne á um fimm milljónir hluta í Bear Stearns sem hafa helmingast í verði á einu ári. Talið er að eignarhlutur hans í bankanum hafi rýrnað um 507 milljónir dollara á síðustu mánuðum.