Bandaríska fjárfestingafélagið PAR Capital Management hefur selt allan eignarhlut sinn í Icelandair samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Síðustu bréfin voru seld í 385 milljóna króna viðskiptum sem tilkynnt var um í morgun. Þá voru 442 milljónir hluta seldir á genginu 0,87 krónur á hlut. Markaðsviðskipti Íslandsbanka sáu um viðskiptin.

Félagið var stærsti hluthafi Icelandair þegar kórónuveirufaraldurinn skall á með 13,7% en hefur síðan þá selt niður hlut sinn í félaginu. Það hóf að selja bréf sín þegar gengi bréfa Icelandair var í kringum 3 krónur á hlut. Þá tók PAR ekki þátt í nýafstöðnu hlutafjárútboði Icelandair.  Tap félagsins á fjárfestingunni hleypur á milljörðum króna.

PAR Capital kom inn í hluthafahóp Icelandair í apríl 2019 þegar það keypti 11,5% hlut í Icelandair fyrir 5,6 milljarða króna á genginu 9,03 krónur á hlut með útgáfu á 625 milljón nýjum hlutum í félaginu.

Þegar tilkynnt var um fjárfestinguna kom fram að PAR væri með um fjóra milljarða dollara í stýringu. Það hefur orðið illa úti í faraldrinum þar sem en stór hluti af fjárfestinga félagsins hefur verið í ferðaþjónustu, ekki síst í flugfélögum.