„Þeir [Par Capital] eru alveg farnir út núna en það er ekki vegna þess að þeir hafi ekki trú á viðskiptalíkani félagsins [Icelandair], þeir hafa mikinn áhuga á að koma inn aftur,“ sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair í nýjasta hlaðvarpi Snorra Björnssonar. „Ég er í ágætis sambandi við þá og þeir hafa mikla trú á okkar fyrirtæki og Íslandi sem ferðamannalandi til framtíðar," segir Bogi og bætir við að það hafi verið skattaleg sjónarmið sem spila hlutverk í því að félagið hafi ákveðið að selja sinn hluta að fullu.

Bogi segir hlustendum frá því þegar bandaríska fjárfestingafélagið Par Capital Management kom inn í hluthafahóp Icelandair í apríl 2019. Par keypti þá 11,5% hlut í Icelandair fyrir 5,6 milljarða króna á genginu 9,03 krónur á hlut. Bogi segir að það hafi verið „stór frétt fyrir bæði íslenska ferðaþjónustu og okkar fyrirtæki [Icelandair] að fá aðila eins og Par Capital inn í okkar hluthafahóp því þetta er sjóður sem hefur ekki gert neitt frá stofnun annað en að fjárfesta í flugfélögum og ferðaþjónustufyrirtækjum.“

Eftir hlutafjárútboð Icelandair í september varð Gildi lífeyrissjóður stærsti hluthafi Icelandair með 6,61% hlut. Samkvæmt hluthafalista trónir þó Íslandsbanki á toppnum með 6,64% hlut. Þar eru þó meðtaldir hlutir sem Íslandsbanki geymir fyrir hönd viðskiptavina sinna og Gildi því líklegast stærri hluthafi.

Í kjölfar útboðsins komu inn 7.000 nýir hluthafar og eru þeir alls um 11-12 þúsund í dag. Á meðal stórra hluthafa í Icelandair fyrir útboðið sem tóku ekki þátt má nefna Lífeyrissjóð verzlunarmanna, sem var stærsti hluthafinn með 11,81% hlut, Par Capital og Birta lífeyrissjóð.

Bogi segir í téðu hlaðvarpi að hefði hann vitað að jafn umsvifamiklir fjárfestar myndu ekki taka þátt í útboðinu hefði hann haft áhyggjur, en sem betur fer fór allt á besta veg. „Það voru þarna stórir fjárfestar sem eru mikilvægir á fjárfestamarkaðnum á Íslandi og voru stórir hluthafar í okkur sem tóku ekki þátt. Ef maður hefði vitað það fyrir fram að þeir myndu ekki taka þátt þá hefði maður haft verulegar áhyggjur af því að þetta myndi hugsanlega klikka,“ sagði Bogi.