CCP, tölvuleikjafyrirtækið íslenska sem gaf út leikinn geysivinsæla EVE Online, hefur nú selt undirfélag sitt, White Wolf Publishing til Paradox Interactive.

White Wolf Publishing er útgáfufyrirtæki sem hefur eignarétt á og sér um vörumerki á borð við World of Darkness, Vampire: The Masquerade og Werewolf: The Apocalypse.

White Wolf mun nú starfa sem sjálfstæð eining undir Paradox Interactive, og Tobias Sjöberg mun leiða teymið. Sjöberg var framkvæmdastjóri sölusviðs hjá Paradox til þessa.

„Ég hef fengið að vinna með risum eins og Paradox og DICE í markaðssetningu tölvuleikja síðustu tuttugu árin, og er mjög spenntur fyrir að takast á við að finna nýjar leiðir til að þróa stafrænar veraldir White Wolf,“ segir Sjöberg.

Paradox Interactive er tölvuleikjafyrirtæki á heimsvísu og hefur gefið út stóra titla á borð við Europa Universalis, Crusader Kings og Cities:Skylines.

CCP er flestum kunnugt en fyrirtækið fór sigurför um tölvuleikjaheiminn eftir að hafa gefið út geimhernaðarleikinn EVE Online, auk DUST 514. Nú eru titlarnir Gunjack og EVE: Valkyrie í þróun hjá CCP, en báðir leikirnir byggja á sýndarveruleikatækni.