Parísarborg hefur kært Airbnb til franskra dómstóla og krefst þess að félagið fjarlægi tugþúsundir gistirýma af vefsíðu sinni.

Nýjar reglur í París gera leigusölum skylt að að skrá sig til yfirvalda og gefa upp skráningarnúmer á vefsíðu Airbnb þegar þau auglýsa eign til útleigu. Borgin segir slíka skráningu nauðsynlega til þess að geta fylgst með fjölda útleigðra gistinátta en hverja íbúð má að hámarki leigja út í 120 nætur á ári.

Ef dæmt verður borginni í vil gæti það verið afar kostnaðarsamt fyrir Airbnb en París er einn stærsti markaður félagsins enda afar vinsæl ferðamannaborg.

Parísarborg hefur jafnframt gert þá kröfu að dómstólar sekti Airbnb og aðrar álíka vefsíður um 1.000 evrur á dag fyrir hverja skráningu sem ekki er í samræmi við nýju reglurnar. Það samsvarar um 122 þúsund krónum á dag miðað við gengi evrunnar nú.