Á komandi Iðnþingi, sem haldið verður 9. mars næstkomandi, verður sérstök áhersla lögð á innviði landsins og orkumál. Að sögn formanns stjórnar Samtaka iðnaðarins, Guðrúnar Hafsteinsdóttur, er hér um að ræða málefni sem skipta fyrirtæki landsins miklu máli. „Á Iðnþinginu í ár verður kastljósinu beint sérstaklega að innviðum landsins enda eru góðir innviðir lífæð samfélagsins og lykillinn að því að hér geti þrifist bæði blómlegt mannlíf og atvinnulíf. Við munum leggja áherslu á málfundi um samgöngur og uppbyggingu auk þess að fjalla um raforku og nýjar útfærslur í orkuframleiðslu á borð við sólarorku, orkugjafa úr metani eða hvað sem er annað,“ segir Guðrún.

Meiri vinna en fólk heldur

Að sögn Guðrúnar hefur meira starf verið unnið á þessu sviði en fólk heldur. „Já, það er verið að vinna miklu meiri vinnu en við gerum okkur grein fyrir. Ég finn það stundum að margir eru þeirrar skoðunar að í iðnaðnum sé ekki áhugi fyrir umhverfismálum en raunveruleikinn er allt annar. Við sjáum það í skoðanakönnunum sem við leggjum fyrir félagsmenn okkar að umhverfismálin, og umhverfislausnir sérstaklega, eru alltaf að skora mun hærra en þær gerðu fyrir fimm til tíu árum síðan.

Ég held m.a. að Parísarsáttmálinn hafi þar haft heilmikil áhrif og að öll ábyrg fyrirtæki geri sér grein fyrir því að hér á ferðinni málaflokkur sem ekki er hægt að líta framhjá lengur.“

Nánar er fjallað um málið í Orku og iðnaði, fylgiblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.