Parket og gólf, P.O.G., hefur opnað stærri og rúmbetri sýningarsal í verslun sinni að Ármúla 23. Endurnýjað sýningarrými er samtals 400 fermetrar en þar geta viðskiptavinir valið parket, flísar, veggja- og loftaefni, hurðir og pallaefni frá viðurkenndum framleiðendum auk ýmissar þjónustu sem fyrirtækið býður.

Í fréttatilkynningu vegna opnunarinnar er haft eftir Þórði Birgi Bogasyni, framkvæmdastjóri P.O.G., að með opnun á endurnýjaðrar verslunar sé tekið fyrsta skrefið af mörgum í sókn á markaði fyrir innréttingaefni.

„Öll sýningaraðstaða er eins og best verður á kosið en nú höfum við tvöfaldað sýningarrýmið frá því sem fyrir var. Við bjóðum fyrsta flokks vörur frá viðurkenndum framleiðendum og leggjum okkur fram um að höfða til þeirra sem láta gæði, fallegt útlit og hagstætt verð ráða við val á innréttingaefnum. Þá bjóðum við þjónustu fagmanna í tengslum við vörur okkar en í henni felst bæði lagning og uppsetning á heimilum og í fyrirtækjum.“