Félagið Parketval ehf. hefur keypt vörumerki, viðskiptavild og rekstur Egils Árnasonar. Parketval er í eigu feðganna Einars Gottskálkssonar og Ásgeirs Einarssonar en þeir koma úr fjölskyldunni sem rekið hefur Harðviðarval síðastliðin 30 ár. Að sögn Ásgeirs var félagið stofnað utan um reksturinn en parketverslun Egils Árnasonar hefur verið í skiptameðferð í nokkurn tíma. Búið var auglýst til sölu fyrir skömmu og bauð Parketval hæst í reksturinn en nokkrir aðilar sendu inn tilboð.

Verslun Egils Árnasonar var með starfsemi á Akureyri auk verslunarinnar í Ármúla. Sömuleiðis var félagið með vörugeymslu í Klettagörðum. Að sögn Ásgeirs er unnið á fullu við að vega og meta allar rekstrarforsendur en verslun Egils Árnasonar hefur verið lokuð síðan 1. apríl. Ekki er ljóst hve margir af 20 starfsmönnum félagsins fá vinnu hjá nýju félagi en búið var að segja upp öllum starfsmönnum.

Einar Gottskálksson er með yfir 30 ára reynslu af viðskiptum á sama markaði og Egill Árnason starfar á. Hann hefur komið að fjölmörgum fyrirtækjum á Íslandi með góðum árangri og má þar nefna Harðviðarval, Sindra-Stál, Hringrás og Gólflausnir-Malland.

Ásgeir starfaði sem framkvæmdastjóri Sindra fram til mars 2009. Ásgeir sótti menntun sína til Bretlands og lauk þar B.Sc.-gráðu í viðskiptafræði og M.Sc.-gráðu í Service Management. Auk þess hefur Ásgeir gegnt fjölmörgum ábyrgðarstöðum hjá íslenskum fyrirtækjum. ,,Við teljum að það sé tækifæri til að koma inn á þennan markað núna þó umhverfið sé vissulega erfitt," sagði Ásgeir.