Samfélagsmiðillinn Parler, sem hefur verið vinsæll vestanhafs meðal íhaldsamra, er kominn í loftið aftur, eftir að hafa verið úthýst af ýmsum tæknifyrirtækjum eftir hina banvænu árás á bandaríska þinghúsið fyrr á árinu.

Google og Apple fjarlægðu Parler á sínum tíma úr smáforritaverslunum sínum en miðillinn var þrátt fyrir það aðgengilegur þeim sem þegar höfðu sótt smáforritið og á vefnum. Smiðshöggið rak Amazon svo þegar fyrirtækið fjarlægði miðilinn úr skýjaþjónustu sinni, en frá því hefur miðillinn ekki verið aðgengilegur þar til nú.

Í gær tilkynnti Parler um að miðillinn væri á leið í loftið aftur en notendur eru að sögn 20 milljón talsins, að því er fram kemur í frétt WSJ . Mark Meckler, sitjandi forstjóri Parler segist yfir sig ánægður með að bjóða notendur velkomna aftur og að miðillinn sé rekinn af reynslumiklu teymi og sé kominn til að vera.

Samfélagsmiðillinn byggir að sögn á öflugri og sjálfstæðri tæknilausn en netþjónar Parler eru nú hýstir hjá SkySilk Inc. SkySilk segist styðja Parler í þeirri viðleitni að vera óháður samfélagsmiðill.  Fyrstu vikuna verður einblínt á að koma þjónustu til núverandi notenda í gagnið aftur en að því loknu verður hægt að taka á móti nýjum notendum.