„Þegar ég fékk skipunarbréf í þennan hóp þá var það fyrir „starfshóp um ráðstöfun eigna NSA,“ skrifar Tryggvi Hjaltason á Facebooksíðu sína . Hann starfar hjá CCP og var í starfshópnum sem skrifaði skýrslu um framtíð Nýsköpunarsjóðs atvinnulífs (NSA) sem fjallað var í Viðskiptablaði dagsins og á sprotavefnum Northstack . Skýrslu starfshópsins má lesa hér .

„Upprunalega átti hópurinn því aðeins að fjalla um þann afmarkaða hluta. Ég lagði mikla áherslu á að það væri galið að ætla að taka ákvarðanir í tómarúmi um NSA og hvernig ætti mögulega að endurskipuleggja og endurfjármagna sjóðinn að einhverju leyti án þess að taka umræðu um hvað hann ætti að vera í stóra samhenginu og hver ávöxtur íslenska stuðningsumhverfisins í nýsköpun ætti að vera, þessu var hópurinn sammála og því hélt vinnan áfram með breiðari skýrskotun“ skrifar Tryggvi.

Tillögurnar sem settar eru fram í skýrslunni um aðgerðir til styttri tíma eru að styrkja rekstrargrundvöll NSA og auka fjárfestingargetu með tímabundnu framlagi úr ríkissjóði, að tryggingadeild útflutningslána verði færð frá sjóðnum og að stofnuð verði samlagshlutafélög til að fá fleiri aðila að borðinu. Tillögur um aðgerðir til lengri tíma eru samræming og stefnumörkun nýsköpunarumhverfisins, samvinna stofnana í stuðningsneti nýsköpunar, stefnumiðuð forgangsröðun á markaði og alþjóðleg markaðssetning. Tillögur til lengri tíma eiga það sameiginlegt að horfa til stoðkerfis nýsköpunar á Íslandi til framtíðar.

„Þetta er partur af miklu stærra samtali sem ég og fleiri hafa átt við stjórnvöld í mörg ár. Það eru miklir peningar og margar stofnanir í kerfinu en ekki alltaf skýrt hverju eigi að skila, annað en bara nýsköpun,“ segir Tryggvi í samtali við vb.is.

„Umhverfið eins og það er núna er svolítið bland í poka. Ég tel mikilvægara að skoða þetta út frá því hvernig heildarumhverfið eigi að vera  og hvar NSA gæti þá passað í stærri heildarmynd. Ætti NSA til dæmis að vera sjóðasjóður, einbeita sér að erlendri tengslamyndun, taka vaxtar eða sprotastig, sérhæfa sig í ákveðnum geira eða hvað,“ segir Tryggvi sem tekur ekki undir að sá möguleiki að gera NSA að sjóðasjóði hafi verið sleginn út af borðinu. „Það kemur fram í skýrslunni að það gæti hentað fyrir NSA ef það væri partur af stærri mynd, ísraelska módelið sem þar er vitnað í getur t.d. virkað á þann hátt eftir því hvernig það væri virkjað.“

Fyrsta fasta skrefið í áttina að kortlagningu

Starfshópurinn hafi því víkkað hlutverk sitt frá því að horfa eingöngu á ráðstöfun eigna NSA yfir í að horfa á hvert framtíðarhlutverk hans ætti að vera. Við það jókst töluvert álagið á starfshópnum og þeir fundir hans sem áttu í upphafi að vera sex urðu fimmtán, en seta í starfshópnum var ólaunuð.

„Okkar vinna verður því í rauninni fyrsta fasta skrefið sem stjórnvöld stíga í áttina að kortlagningu á sprotaumhverfinu sem mun gagnast inn í nýja starfshópa, um framtíðarnýsköpunarstefnu Íslands,“ segir Tryggvi.

„Það er mjög þörf og mikilvæg vinna. Í gegnum þá vinnu reikna ég með að verði gerð almennileg úttekt á umhverfinu.“ Tryggvi svarar jafnframt þeirri gagnrýni að ekki hafi verið haft samband við sprotafjárfesta, það sé rétt að þeir hafi ekki verið kallaðir á fundi nefndarinnar. Hann hafi hins vegar sjálfur átt samtal við þá í tengslum við vinnu nefndarinnar, samtal sem skilaði sér inn á fundi hennar og í skýrsluna.

Þarf heildarsýn í nýsköpun á Íslandi

Tryggvi segir mikla þörf á að ná heildarsýn á nýsköpun á Íslandi. „Stjórnvöld þurfa að setja sér markmið, til dæmis að búa til stuðningsumhverfi sem tryggir skalanlegan vöxt erlendis, ná sérfræðitengingum inn á valda markaði og þjálfa og fá til landsins fólk sem byggir þær tengingar eða að Ísland byggi sjálft upp sérfræðiþekkingu á einhverju sviði. Þegar það er komið getum við fara að skoða hvaða hlutverki NSA, Rannís, Tækniþróunarsjóður og fleiri eigi að gegna sem hluti af heildarmynd. Það er allt annað að fá sérfræðistuðning sem frumkvöðull, til dæmis fyrir ákveðna markaði og skalanleg viðskiptamódel heldur en að fá almennan stuðning við nýsköpun eins og kerfið í heild sinni er meira strúktúrað í dag, viðbótarvirðið (e. added value) er margfalt,“ segir Tryggvi.

„Þetta samtal hefur verið í gangi lengi og er núna loksins að komast í fastan farveg. Skýrslan um NSA varð því bara flott fyrsta skref í áttina að þessu. Fremst í henni segir að það liggi á að taka ákvarðanir um framtíð sjóðsins, hvort hann verði settur á fjárlög eða eitthvað annað.“ Tryggvi segir umhverfi sjóðsins þó hafa breyst nokkuð frá því hann seldi Greenqloud, sem tryggði sjóðnum töluvert fé. „Ef það hefði ekki gerst hefði sjóðurinn verið í töluverðri hættu tímabundið. En til lengri tíma var horft til heildarumhverfisins. Það er samhengið sem mér þykir vanta í gagnrýnina.“

Umræðan á miklu betri stað en fyrir nokkrum árum

Tryggvi segir þó rétt að hópurinn hafi ekki haft úr nægilega miklum gögnum að moða. Það stafi þó hreinlega af því að lítið af gögnum um nýsköpunarumhverfið á Íslandi eru til og starfshópurinn hafði hvorki það hlutverk né burði til að frumvinna slík gögn.

„Það er hins vegar farin í gang vinna hjá hinu opinbera til að greina umhverfið betur. Umræðan um umhverfið hefur batnað stórkostlega og á Northstack stóran þátt í því. Skilningur stjórnvalda hefur líka stórbatnað,“ segir Tryggvi og vísar til svokallaðra nýsköpunarlaga frá 2016 sem benda til miklu dýpri skilnings á nýsköpunarumhverfinu, og nefnir Tryggvi að þar hafi til dæmis verið breytingar á lögum um skattlagningu umbreytanlegra skuldabréfa og skattafslátt til að laða erlenda sérfræðinga til landsins.

„Þessi umræða var ekki til í neinu þroskuðu formi fyrir fimm eða sex árum og svona gagnrýni sem vantar þetta samhengi getur verið ákveðið högg fyrir þessa umræðu ef hún leiðir t.d. til þess að gott fólk gefur ekki kost á sér í svona vinnu en á næstunni verða skipaðir nokkrir starfshópar í kringum þessi mál. Það þarf að tala um þetta þannig að við missum ekki skriðþungann, en ég veit samt að Kristni Árna hjá Northstack og Helgu hjá Crowberry gekk ekkert annað en gott til enda hafa þau bæði átt stóran þátt í að efla þessa umræðu.“