Fáar nýlenduvörur hafa hækkað jafnmikið í verði á heimsmarkaði það sem af er ári og kakó. Við lokun LIFFE-markaðarins í London í fyrradag kostaði tonnið af kakói 2.320 pund og hefur það hækkað um 303 pund, 15% frá áramótum.

Þegar litið er til vesturs til markaðar í New York er hækkunin enn meiri það sem af er ári. Þar kostaði tonnið 3.703 dali í fyrradag og hefur hækkað um 22% frá áramótum. Taka ber fram að það verð sem hér er til umfjöllunar er verð á framvirkum samningum til eins mánaðar.

Eins og flestum ætti að vera kunnugt er kakó meginuppistaðan í súkkulaði, a.m.k. brúnu súkkulaði, og því segir það sig sjálft að þegar heimsmarkaðsverð á kakói hækkar eru líkurnar á því að súkkulaði hækki í verði allmiklar. Nú styttist í páska og páskaeggin sem heyra þeim til og í ljósi þess að súkkulaði er ómissandi í páskaeggjaframleiðslu, og þess hve kakóverð hefur hækkað mikið á heimsmarkaði það sem af er ári, er eðlilegt að velta upp spurningunni hvort íslenskir neytendur megi eiga von á því að páskaeggin hækki í verði miðað við það sem var í fyrra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu blaðsins undir liðnum tölublöð hér að ofan.