Tæknitröllin hjá samfélagsmiðlinum Facebook og hugbúnaðarfyrirtækinu Microsoft nýttu páskana vel en bæði fyrirtækin tilkynntu bæði um risakaup um helgina þar sem tveir milljarðar dala skiptu um hendur.

Stjórnendur Facebook greindu frá því í gær að fyrirtækið hefði keypt fyrirtækið Instagram fyrir einn milljarð dala, jafnvirði vel á 130 milljarða íslenskra króna. Fyrirtækið býr til hugbúnað fyrir snjallsíma með myndavélum sem gerir notendum þeirra kleift að gefa myndum sínum ýmsar mismunandi áferðir og deila þeim með öðrum.

Fyrirtækið var stofnað fyrir tveimur árum. Forritið Instagram var upphaflega fyrir iPhone-símana og valdi Apple Instagram smáforrit (e. app) ársins í fyrra.

Þá greindu stjórnendur Microsoft frá því um páskana að fyrirtækið hafi keypt nokkur einkaleyfi af bandaríska risafyrirtækinu AOL. Kaupverðið er jafnhátt og Facebook greiddi fyrir Instagram en vonast er til að kaupin breikki tekjugrunn fyrirtækisins. Gengi hlutabréfa AOL rauk upp um næstum 45% í gær eftir að tilkynnt var um kaupin og hefur það ekki verið hærra í um ár.