Ferðalöngum er hollast að missa ekki fartölvuna úr sjónmáli þegar þeir ferðast um evrópska flugvelli því að rannsókn sýnir að þær gætu horfið á augabragði eins og þúsundir annarra. Í flestum tilvikum er þeim stolið en hluti hverfur með öðrum hætti. Tölvuframleiðandinn Dell hefur birt könnun sem sýnir fram á að á hverju ári hverfi rúmlega 800 þúsund fartölvur í flughöfnum í Bandaríkjunum og Evrópu. Um 57% þeirra komast aldrei aftur til eigenda sinna.

Mesta hættan á Heathrow

Í evrópskum flugstöðvum hverfa 4.000 fartölvur í hverri viku, flestar þeirra á Heathrow í London, eða 900 í hverri viku. Í Amsterdam glatast um 750 fartölvur og 733 í París. Margar þeirra tilheyra kaupsýslumönnum sem hafa ekki sett á þær innbrotsvarnir og telur Dell að fyrirtæki séu í mikilli hættu að glata dýrmætum upplýsingum af þeim sökum.

Helmingur þeirra fésýslumanna- og kvenna sem þátt tóku í rannsókn Dell viðurkenndu að vista mikilvæg og viðkvæm viðskiptagögn á fartölvum sínum, en aðeins ríflega 50% þeirra hafa gert ráðstafanir til að verja upplýsingarnar. Á þessu ári er áætlað að hinn alþjóðlegi viðskiptaheimur kaupi 63 milljónir fartölva.