Bæjarstjórn Vesturbyggðar ætlar að láta kanna möguleika á vatnsútflutningi og hefur verið skipuð nefnd til að skoða hvað hægt er að gera í stöðunni.

Guðmundur Guðlaugsson bæjarstjóri á sæti í nefndinni, en hann sagði í samtali við Viðskiptablaðið að málið væri í raun á frumstigi. "Það er búið að skipa nefnd sem er rétt farin af stað og við erum í samstarfi við ákveðin aðila um skoðun á verkefninu. Vissulega er þetta alltaf áhætta, en við höfum ekki tekið neina ákvörðun um vatnsútflutning. Hún verður ekki tekin nema á grundvelli þess hvað kemur út úr þessari athugun. Þá verður ekki síst tekið tillit til markaðsþáttarins.

Málið er að hér er borhola sem úr rennur mjög tært og hreint vatn sem menn hugsa sér að nýta í þetta. Hér er mjög gott vatn," segir Guðmundur.

Hann segir að Patreksfirðingar ætli sér að taka þann tíma sem þarf til að kanna málið og ekki verði anað að neinu. Á næstunni mun samstarfsaðili funda með nefndinni um framhaldið, en Guðmundur taldi ekki rétt að svo stöddu að upplýsa um hvaða aðili það er. Fyrir nokkuð mörgum árum var gerð skýrsla um mögulegan vatnsútflutning frá Patreksfirði og sú skýrsla lögð til grundvallar þeirri vinnu sem nú er farin í gang.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.