Ég er alin upp í Stykkishólmi og foreldrar mínir voru í atvinnurekstri, mamma rak verslun um árabil og pabbi skipasmíðastöð ásamt öðru. Það var því alltaf einhver „business“ í kringum mig og ég held að það hafi alltaf legið beint við að ég færi í eitthvað sem tengdist viðskiptalífinu. Á einhverjum tímapunkti ákvað ég að endurskoðun væri málið fyrir mig, fór í viðskiptafræðina og kláraði svo endurskoðunarnámið. Ég varð þrettánda konan til að verða löggiltur endurskoðandi og hóf störf í miklu karlaumhverfi eins og fylgt hefur konum sem eru á svipuðum aldri og ég. Ég er þó þeirrar skoðunar að fjölbreytileikinn sé eftirsóknarverður og finnst skemmtilegast að vinna í hópi með jafnt konum sem körlum og á ólíkum aldri.“

Þetta segir Sigrún Ragna Ólafsdóttir, sem hætti á árinu störfum sem forstjóri VÍS. Starfslokin ollu töluverðu fjaðrafoki í íslensku viðskiptalífi og spilaði þar inn í að Sigrún var fyrsti og eini kvenforstjórinn sem stýrði skráðu fyrirtæki hér á landi eftir hrun.

Að námi loknu hóf Sigrún störf sem endurskoðandi og gerðist fljótlega meðeigandi í lítilli endurskoðunarskrifstofu. „Fyrirtækið hét á þeim tíma Stoð endurskoðun en varð síðar, eftir samruna við nokkur endurskoðunarfyrirtæki, að því sem í dag er Deloitte, öflugt endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtæki með alþjóðlega tengingu. Tíminn í endurskoð- unarbransanum var góður og á þessum árum fékk ég tækifæri til að vinna með öflugum stjórnendum og stjórnum fyrirtækja í flestum atvinnugreinum og kynnast þeirra áskorunum. Ég varð stjórnarformaður Deloitte árið 2006 og tók þátt í að flytja fyrirtækið í Turninn í Kópavogi. Ég flutti hins vegar ekki með, því ég hætti í nóvember 2007, eftir um 20 ára starf í geiranum,“ segir Sigrún.

Partýið var í raun búið

Sigrún rifjar upp að henni hafi þótt vera kominn tími til að prófa nýja hluti eftir að hafa starfað í mörg ár sem endurskoðandi og ráðgjafi. „Ég ákvað að venda mínu kvæði í kross eftir að hafa árið 2007 lokið MBA-námi frá Háskólanum í Reykjavík. Ég hóf störf í Glitni banka um miðjan nóvember 2007, rétt fyrir hrun, sem framkvæmdastjóri fjárhagssviðs. Ég hef stundum sagt að það hafi verið búið að kveikja ljósin og byrjað aðeins að taka til þegar ég mætti. Partýið, eins og sumir hafa talað um á þessum árum, var í raun búið.“

Viðtalið við Sigrúnu má lesa í heild sinni í Áramótablaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.