Samningafundi Icelandair og Flugfreyjufélag Íslands hjá ríkissáttasemjara í dag lauk án niðurstöðu. Í tilkynningu frá Icelandair segir að niðurstaða fundarins hafi verið að ekki yrði lengra komist. Ekki hafi verið boðað til frekari funda og ekki sé útlit fyrir að svo verði.

Icelandair birti Flugfreyjufélaginu tilboð á sunnudaginn og vildu að það yrði borið undir félagsmenn. Flugfreyjur segja að í því hafi falist allt að 40% launaskerðing og hafa hafnað boðinu. Forsvarsmenn Icelandair hafa mótmælt þeirri túlkun. „Þau tilboð sem lögð hafa verið fram af hálfu Icelandair hafa verið til þess fallin að auka samkeppnishæfni félagsins en á sama tíma verja ráðstöfunartekjur starfsfólks og verða við óskum um sveigjanleika í starfi og val um vinnuframlag, t.d. möguleika á hlutastörfum," segir í tilkynningu frá Icelandair.

Markmið Icelandair sé að tryggja starfsmönnum góð kjör sem séu samkeppnishæf við það sem sambærileg flugfélög bjóða, svo sem SAS og Finnair. Þau félög hafi á liðnum áratug gert veigamiklar breytingar á kjarasamningum í þeim tilgangi að auka samkeppnishæfni þeirra á alþjóðlegum flugmarkaði.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir að eitt af því að sem verði að ganga eftir svo að endurfjármögnun takist séu  langtímasamningar við flugstéttir. „Sá samningur sem Icelandair bauð flugfreyjum og flugþjónum hefði hvort í senn tryggt samkeppnishæfni félagsins til lengri tíma og starfsmönnum félagsins áfram góð kjör og gott starfsumhverfi. Áhafnir Icelandair eiga mjög stóran þátt í því að gera Icelandair að því öfluga fyrirtæki sem það er. Það er því áhyggjuefni að ekki verði lengra komist í þessum viðræðunum við Flugfreyjufélag Íslands,“ er haft eftir Boga í tilkynningunni.