Paul Nikolov fyrsti varaþingmaður vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmi norður sækist eftir fyrsta til þriðja sæti í forvali flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum sem fer fram þann 7. mars nk. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Paul, sem segist tvisvar hafa tekið sæti á Alþingi á þessu kjörtímabili.

Í yfirlýsingunni segir að Paul ætli að leggja áherslu á atvinnumál fyrst og fremst – að skapa ný störf á landinu, með áherslu á sjálfbæra þróun, sem sé umhverfisvæn og kröftug, og geti bætt ímynd Íslands. Meðal þess séu störf í uppbyggingu á innviðum íslensks samfélags, á sviðum þekkingar, tækni og vísinda og einnig þekkingu okkar á jarðhitaorku. Hann ætli einnig að leggja áherslu á endurnýjun almenningssamgangna og skipulagsmála, og ekki síst hvað varðar málefni innflytjenda- og flóttamanna.

Í yfirlýsingunni kemur fram að Paul fæddist 18. desember 1971 í Bandaríkjanum og fluttist til Íslands í september 1999. Fyrir utan starf sitt sem varaþingmaður vinnur hann sem stuðningsfulltrúi í sambýli í Kópavogi. Hann er giftur listkonunni Kremena Nikolova-Fontaine og á eina dóttur, Yuliu, sem verður þriggja ára í apríl næstkomandi.