Milljarðamæringurinn Paul Elliott Singer stofnaði vogunarsjóðinn Elliott Management árið 1977. Singer stýrir í dag ríflega 32,8 milljörðum dala og hefur skilað fjárfestum sínum rúmlega 14% ávöxtun á ári hverju frá stofnun sjóðsins.

Singer þykir einn sá reyndasti á sínu sviði og hefur notið mikilla vinsælda um allan heim. Sjóðurinn hefur þó ekki tekið við nýju fjármagni í 2 ár.

Fjölmiðlar vestanhafs hafa þó fjallað um ákvörðun Singers um að opna dyrnar á ný. Ekki er vitað hversu miklum peningum hann mun taka við, en árið 2015 tók hann inn 3,8 milljarða og árið 2013 tók hann við 2013 milljörðum.

Á síðasta ári skilaði hann 13,1% ávöxtun og var því 5,3% yfir meðalávöxtun vogunarsjóða í sama flokki.

Ólíkt mörgum sjóðum, tekur Elliott Management þó ekki strax við fjármagninu, heldur fær hann fólk til þess að taka frá fjármagn sem hann kallar svo eftir þegar tækifæri gefast.