Paul A. Volcker, sem var áhrifamaður í stjórn peningamála í Bandaríkjunum í meira en sex áratugi, er fallinn frá 92 ára að aldri. Volcker sem kallaður hefur verið haukur í peningamálum, beitti mjög háum stýrivöxtum þegar hann var seðlabankastjóri seinni hluta áttunda áratugarins og fyrri hluta þess níunda til þess að ná niður verðbólgunni sem hafði náð sér á strik árin áður.

Áður var hann einn helsti stuðningsmaður Bretton Woods samkomulagsins í fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna undir stjórn forsetanna Kennedy, Johnson og Nixon, en sá síðastnefndi tók Bandaríkjadalinn af gullfætinum sem var helsta forsenda þess að aðrir gjaldmiðlar í samkomulaginu héldu fastgengisstefnu gagnvart dalnum.

Á árunum 1975 til 1987 þegar hann var háttsettur í Seðlabankanum var hann auk þess að berjast við verðbólguna á móti því að einfalda fjármálareglur ásamt því að vara við miklum vexti í skuldum ríkisins.

Loks í síðasta opinbera hlutverki sínu, sem stjórnarformaður efnahagsráðgjafastýrihóps Barack Obama fyrrum forseta Bandaríkjanna lagði hann fram tillögur um frekari takmarkanir á starfsemi stærri banka, en sú regla hefur síðan verið kennd við hann.

Á langri ævi tók Volcker að sér ýmis verkefni, þar á meðal sem sáttasemjari í erfiðum viðræðum svissneskra banka við afkomendur fórnarlamba Helfarar þýskra Þjóðernissósíalista gegn gyðingum og öðrum hópum, og voru miklum verðmætum komið á ný í hendur réttmætra eigenda í kjölfar vinnu hans.

En það sem hann er þekktastur fyrir er hvernig hann greip til við að berja niður langt tímabil mikillar verðbólgu í Bandaríkjunum í valdatíð Jimmy Carter Bandaríkjaforseta. Þegar hann var skipaður seðlabankastjóri í ágúst 1979 var verðbólgan um 1% á mánuði, en til samanburðar var hún minna en 2% allt árið 2017.

Með aðgerðum sínum fór efnahagslíf Bandaríkjanna í gegnum mikla kreppu sem dró úr verðbólguvæntingum en aftur ruddi brautina fyrir hagvaxtarskeiðið í kjölfar umbótanna sem Ronald Reagan Bandaríkjaforseti greip til í sinni forsetatíð. Dóttir hans, Janice Zima staðfesti að andlát Volcker hefði átt sér stað á sunnudaginn, nánar má lesa um sögu hans og áhrif í New York Times .