Henry Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, ráðleggur þeim þróunarríkjum sem nú glíma við hækkandi heimsmarkaðsverð á hrávörum að forðast verðlagsstýringar af nokkru tagi. Slíkt geri líklega meiri skaða en gagn sé litið til hagvaxtar til langs tíma, en Bloomberg greinir frá þessu.

"Ríkisstjórnir þurfa að standast þá freistingu sem verðstýringar eru, sem og niðurgreiðslur, sem eru jafnan ekki skilvirkar og góðar aðferðir til að vernda viðkvæma hópa fyrir hækkunum á matarverði," sagði Paulson á fundi Alþjóðabankans í Washington.

Paulson sagði jafnframt að tækniframfarir í landbúnaði og orkusparnaður séu betri leiðir til að takast á við vandann.

Matvælaverð í heiminum hefur að meðaltali hækkað um 57% frá því á sama tíma á síðasta ári samkvæmt frétt Bloomberg.