Henry Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í viðtali við bandaríska fjölmiðla í dag að ákvörðun Seðlabankans að veita Bear Sterns neyðarlán hefði verið sú rétta. Paulson vék sér hins vegar undan því að svara spurningum um hvort vænta megi fleiri björgunaraðgerða af þessu taki. Ráðherrann lagði jafnframt áherslu á að ríkisstjórn landsins hefði tök á því ástandi sem nú ríkti. Viðskiptavefur CNN greinir frá þessu í dag.

„Ríkisstjórnin er reiðubúin að grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru,” sagði Paulson. „Ákvörðunin um að bjarga Bear Sterns var erfið, en engu síður hin rétta.” Paulson sagði að í núverandi ástandi þyrfti hið opinbera að grípa til aðgerða til að minnka afleiðingar ýmissa áfalla, sem gjaldþrot Bear Stearns hefði getað orsakað.

Ríkisstjórn George W. Bush hefur margoft áður sagt að hún leggist gegn því að ríkið skeri fjármálastofnanir sem hafa farið illa að ráði sínu úr snörunni, og því hafa aðgerðirnar á föstudaginn mætt nokkurri gagnrýni. Paulson sagði að sá titringur sem ríkti á fjármálamörkuðum kallaði á sérstakar aðgerðir: „Vega verður hvert tilvik fyrir sig. Ég stefni fyrst og fremst að því að lágmarka áhrif á hagkerfið í heild og komast í gegnum þetta ástand þannig að fjármálalegur stöðugleiki náist aftur,” sagði hann.