Henry Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, hvetur þingið þar í landi til að drífa sig að samþykkja frumvarp ríkisstjórnarinnar um stofnun 700 milljarða dala sjóðs til að lagfæra ástandið á fjármálamörkuðum.

Sem kunnugt er á sjóðurinn að kaupa til sín lélegar skuldir sem nú eru á reikningum banka og fjármálastofnana.

Fjármálafyrirtæki með „talsverða starfsemi í Bandaríkjunum“ munu geta selt skuldir til sjóðsins. Það þýðir að breskir bankar geta nýtt sér þennan kost.

„Það er lítillækkandi að sjá svona mikinn óstöðugleika á fjármagnsmörkuðum og að spyrja sig hvar við fórum af réttri leið,“ sagði Paulson í sjónvarpsviðtali, en tók um leið fram að hann teldi bandarísku þjóðina og grunngildi hennar samfélags hafa bolmagn til að koma sér út úr þessum erfiðleikum.

BBC greindi frá.