Pawel Bartoszek borgarfulltrúi Viðreisnar og forseti borgarstjórnar segir skýrslu um valkostagreiningu fyrir nýjan þjóðarleikvang, ekki setja fram valkosti sem samræmist áherslum borgarinnar um að byggja upp æfingaaðstöðu sem nýtist fyrir börn og unglinga sem og fyrir almenning og afreksfólk.

Einnig veltir hann fyrir sér forsendum um rukkun fyrir bílastæði við völlinn sem hann segist hlynntur, hugmyndir um íþróttasafn í anddyri vallarins, og hvað væri hægt að gera fyrir 10 milljarða í staðinn fyrir að setja þá í nýjan leikvang með hugsanlega takmarkaða nýtingu.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í vangaveltum sem borgarfulltrúinn, sem situr í meirihluta með Samfylkingu, VG og Pírötum í borgarstjórn Reykjavíkur, setur fram um skýrsluna á facebook síðu sinni. Þar spyr hann sig jafnframt hvort jafnmikill markaður sé fyrir sölu VIP sæta sem gert er ráð fyrir í skýrslunni, og er forsenda fyrir því að rífa gömlu stúkurnar tvær og byggja nýjar.

Þegar Viðskiptablaðið ræddi við Geir Þorsteinsson fyrrum formanns KSÍ árið 2016 var gert ráð fyrir að kostnaðurinn yrði 8 milljarðar króna, en þá voru jafnframt uppi hugmyndir um verslanir eða hótel í húsnæðinu, og að nýr völlur myndi borga sig sjálfur .

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum hyggjast ríki og borg hefja viðræður um uppbyggingu nýs þjóðarleikvangs fyrir knattspyrnu, en samkvæmt valkostagreiningunni, sem ger er af bresku ráðgjafafyrirtækis, er 15 þúsund manna völlur talinn sá hagkvæmasti, annað hvort með eða án opnanlegs þaks.

Að minnsta kosti 2 milljarðar þegar settir í völlinn á 10 árum

Pawel bendir á að svokallaður valkostur C í skýrslunni, með grasi og engu þaki, sem felur í sér að báðar gömlu stúkurnar verði rifnar, kosti 10,5 milljarða í byggingu auk 100 milljóna á ári í rekstri. Vesturstúkan var endurnýjuð árið 2007 fyrir þá 1,4 milljarða króna, en tíu árum fyrr hafði eystri stúkan verið byggð fyrir þá um 700 milljónir króna að því er fram kemur á fótbolti.net .

Ódýrasti valkosturinn á móti sem uppfylli kröfur UEFA um 4 stjörnu völl er valkostur B, sem feli í sér að setja upp hátalarakerfi, fjölmiðlaaðstöðu, aðgangshlið og að völlurinn sjálfur verði upphitaður, kostar 2 milljarða króna. Skýrsluhöfundar slái hann samt sem áður út af borðinu því segja hann ekki vera langtímalausn, sem og valkost A sem væri að gera nánast ekki neitt.

Eins og áður segir er ástæðan fyrir því að það sé sagt borga sig að rífa stúkuna sem endurbyggð var fyrir 13 árum síðan sú að á nýja vellinum verði seld um 3 þúsund Premium sæti af 15 þúsund heildarsætum, sem seljist á um 30 þúsund hvert í stað 5 þúsund í venjulegu sætin.

Pawel veltir fyrir sér hvort forsenda sé fyrir svona mikla sölu VIP miða, hvort smíði slíkra sæta verði gagnrýnt nógu mikið til að stigið verði til baka sem aftur breyti forsendum fyrir þeim valkostum sem eru settir fram. Loks bendir hann á að fyrir þessa tíu milljarða væri hægt að fara í nokkrar stórar framkvæmdir sem hafi verið ofarlega á forgangslista borgarinnar það er:

  • 1. Stækkun á fimleikahúsi Fylkis - 500 milljónir
  • 2. Íþróttahús í Laugardal - 2.500 milljónir
  • 3. Gervigrasvellir í Laugardal - 600 milljónir
  • 4. Fimleikahús í Breiðholti - 2.000 milljónir
  • 5. Fjölnota knatthús fyrir KR - 1.200 milljónir
  • 6. Viðbygging við Skautahöllina - 1.000 milljónir
  • 7. Keilusalur - 400 milljónir
  • 8. Fylkisvegur endurbætur - 300 milljónir
  • 9. Tennishús í Laugardal - 1.500 milljónir