PayPal rauk upp í verði í dag eftir að það sneri aftur í Nasdaq kauphöllina eftir áratug undir væng eBay. Greiðsluþjónustufyrirtækið er nú metið á 52 milljarða Bandaríkjadala.

PayPal var milliliðurinn í yfir fjórum milljörðum greiðslna fyrir meira en 235 milljarða dollara árið 2014. Hins vegar hefur landslagið á internetinu breyst mikið síðan eBay keypti PayPal árið 2002 og mun nýfengnu frelsi líklega fylgja aukin sóknartækifæri.

Hlutabréf í PayPal ruku upp í 42,55 dollara þegar markaðir í Bandaríkjunum opnuðu en á meðan féllu hlutabréf í eBay niður í 4,7 prósent. Er fyrirtækið nú 32 milljarða dollara virði.

Greinandi hjá J.P. Morgan sagði að PayPal bæri enn höfuð og herðar yfir alla aðra þegar kemur að greiðslum á veraldarvefnum. Fyrirtækið var stofnað á tíunda áratug síðustu aldar af fjárfestinum Peter Thiel, Elon Musk eiganda Tesla og fleirum.