Rafræna greiðsluþjónustufyrirtækið Paypal á nú í viðræðum um að kaupa samfélagsmiðilinn Pinterest fyrir tæplega 45 milljarða dala, eða um 5.800 milljarða króna. Tilboð Paypal felst að stærstum hluta í að hluthafar Pinterest öðlist hlut í Paypal og er talið verðmeta Pinterest á 70 dali á hlut. Ekki er þó ljóst hvenær greiðsluþjónustufyrirtækið bauð í samfélagsmiðilinn

Hlutabréf Pinterest hækkuðu um 13% í gær í kjölfar fréttaflutnings Bloomberg um málið en gengi Paypal féll um meira en 5%. Hlutabréfaverð Pinterest fór upp í 63,3 dali á hlut í gær en stendur nú í 61,3 dölum.

Paypal er talið með kaupunum vilja hagnýta sér hátt gengi á hlutabréfum sínum, sem hafa hækkað um meira en 150% frá því í mars 2020, til að knýja yfirtökustefnu sína og verða svokallað „súperapp“ líkt og kínverska smáforritið WeChat, að því er kemur fram í frétt Financial Times . Paypal keypti nýlega japanska fyrirtækið Paidy sem býður upp á raðgreiðslulausnir (buy now, pay later) fyrir 2,7 milljarða dala.

Pinterest er með meira en 450 milljónir notenda, sem geta sett inn eða „nælt“ myndir af áhugamálum á töflur og átt í samskiptum. Samfélagsmiðillinn hefur verið að færa út kvíarnar og bæta við nýjum lausnum við netverslun sína.