Greiðslumiðlunarfyrirtækið PayPal hyggst segja upp um það bil tvö þúsund starfsmönnum, eða sem nemur 7% af vinnuafli fyrirtækisins. Þetta kemur fram í grein hjá Financial Times.

Dan Schulman, forstjóri PayPal, tjáði starfsfólki félagsins um áformin í gær og sagði að uppsagnirnar myndu eiga sér stað á næstu vikum.

Hópuppsagnirnar koma í kjölfar umfangsmikilla hópuppsagna hjá öðrum tæknirisum á borð við Google, Meta, Amazon, Twitter, Spotify og Snap. Talið er að tæknirisarnir vestanhafs hafi sagt upp um það bil 200 þúsund starfsmönnum á síðastliðnum tólf mánuðum.

Gengi bréfa PayPal hefur lækkað um hálft prósentustig það sem af er degi og stendur í 81 dölum á hlut. Gengið hefur lækkað um tæplega 75% frá því að það náði toppi sínum sumarið 2021.