Miklar tafir hafa einkennt starfsemi kísilvers PCC á bakka, og móðurfélagið hefur þurft að veita félaginu aukið fjármagn. Þrálát vandræði í hreinsivirki verksmiðjunnar það sem af er ári hafa orðið til þess að slökkva hefur þurft á ofnum og starfrækja þá undir fullum afköstum.

Kísilverið var formlega gangsett þann 1. maí 2018 eftir þrjú ár í byggingu. Upphaflega hafði staðið til að gangsetningin færi fram í desember 2017, en það tafðist fram á næsta ár vegna þess að lokafrágangur – meðal annars yfirferð á tölvu- og framleiðslukerfum og prófun á búnaði – tók lengri tíma en áætlað hafði verið.

Í ársreikningi Bakkastakks slhf. – sem er í eigu íslenskra lífeyrissjóða og á 13,5% hlut í kísilverinu – fyrir árið 2018 kemur fram að sökum þeirra tafa sem orðið hafa hafi þurft að setja frekari fjármuni inn í verkefnið og „huga að fjármagnsskipan í heild“, auk þess sem óvissa hafi aukist á hrávörumörkuðum.

Útfærsla á breytingum á fjármagnsskipan sé í vinnslu og áætlað sé að hún muni liggja fyrir nú í haust. Niðurstaða þeirrar vinnu geti haft áhrif á áætlað verðmæti eignar Bakkastakks í kísilverinu.

í Facebook-færslu frá kísilverinu síðastliðinn föstudag kom fram að rekstur beggja ofna hefði verið „upp og ofan“, og þeim sé nú haldið í 22MW, örlítið undir hannaðri afkastagetu sem sé 24MW.

Rúnar Sigurpálsson, framkvæmdastjóri kísilversins, segir að fundin hafi verið lausn á vandanum með hreinsivirkið, og báðir ofnarnir séu nú starfræktir. Reiknað sé með að reksturinn verði orðinn stöðugur í haust, en upphaflega hafði verið reiknað með að báðir ofnarnir yrðu komnir í stöðugan rekstur á fyrri hluta þessa árs.

Rúnar staðfestir í samtali við Viðskiptablaðið að viðbótarfé hafi verið veitt til félagsins í formi hluthafaláns, og gert sé ráð fyrir að til frekari lánveitinga komi vegna málsins, en vildi ekki gefa upp neinar upphæðir í því sambandi. Að öðru leyti sé hins vegar ekki gert ráð fyrir breytingu á fjármagnsskipan félagsins.