Kísilverksmiðja PCC Bakka við Húsavík boðar að ráðningarferli nýrra starfsmanna hefjist að nýju upp úr áramótum, gangi aðrar áætlanir eftir, en fyrirtækið vonast til að gangsetja verksmiðjuna á ný næsta vor.

Segir félagið að verð á mörkuðum fyrir kísilmálm sé nú aðeins að rétta úr kútnum þó verðið geti enn ekki talist viðunandi. Því vonar félagið að með vorinu verði bæði kominn lægri framleiðslukostnaður sem og betri markaðsaðstæður.

PCC Bakki lokaði verksmiðju sinni í lok júlí í sumar og sagði upp stórum hluta starfsmanna sinna, en á facebook síðu félagsins segir að félagið hafi enn ríflega 50 starfsmenn sem vinni að frekari endurbótum á búnaði og undirbúningi endurræsingar.

Viðskiptablaðið ræddi við Rúnar Sigurpálsson forstjóra PCC Bakka upp úr miðjum september, og þá sagði hann viðgerðir vegna vanhönnunar á þaki vera lokið, en enn stæði ítarleg yfirferð á öðrum ljósbogaofni fyrirtækisins yfir.

Auk þess að klára þyrfti að yfirfara ofninn þá sagði hann heimsmarkaðsverð á mörkuðum með kísilmálm enn það lágt að borga þyrfti með hverju tonni eins og staðan væri nú. Heimsmarkaðsverðið hefði lækkað um 25% meðan á kórónuveirufaraldrinum stæði.

„Ég hef sagt að bjartsýnasta spá sé að við getum byrjað aftur upp úr áramótum,“ sagði Rúnar þá en nú er ljóst að það verður ekki af gangsetningu fyrr en á komandi vori.

PCC Bakki hefur staðið undir nálega öllum nærri 9 þúsund tonna útflutningi kísilmálms frá Íslandi til Bandaríkjanna, en bandaríska viðskiptaráðuneytið hefur sagst vilja leggja nærri helmingsrefsitoll á framleiðsluna vegna meintrar undirverðlagningar.

Hér má sjá fleiri fréttir um framleiðslu kísilmálms á Íslandi: