Pearson hefur selt helmingshlut sinn í Economist Group, sem gefur út blaðið The Economist, fyrir 469 milljónir punda, samkvæmt frétt BBC News . Félagið Exor, eignarhaldsfélag Agnelli fjölskyldunnar á Ítalíu, hefur keypt meirihluta hlutarins.

Fjárhæðin jafngildir tæplega 98 milljörðum íslenskra króna. „Pearson er stolt af því að hafa verið hluti af uppgangi The Economist síðustu 58 ár og hluthafar okkar hafa hagnast gríðarlega á vexti blaðsins,“ sagði John Fallon, framkvæmdastjóri Pearson, um söluna.

Pearson seldi einnig nýlega blaðið Financial TImes og tilkynnti þá í leiðinni að fyrirtækið hygðist einbeita sér að öðrum rekstri. Japanska fyrirtækið Nikkei keypti blaðið á 844 milljónir punda, jafnvirði 177 milljarða íslenskra króna.