Hjónin Gunnhildur Harðardóttir og Ársæll Guðmundsson stofnuðu ráðgjafafyrirtækið Pedagog ehf. nú á dögunum,sem sérhæfir sig í ráðgjöf og þjónustu á sviði mennta- og frístundamála. Hjónin hafa víðtæka sameinaða reynslu á því sviði. Þau hafa verið gift í 32 ár og leggja nú af stað í nýtt ferðalag, rekstur fyrirtækis. Gunnhildur sem er framkvæmdastjóri fyrirtækisins starfar sem deildarstjóri við Lágafellsskóla og hefur um áratuga skeið kennt og leiðbeint ungu fólki bæði á höfuðborgarsvæðinu, landsbyggðinni og í Svíþjóð.

„Þetta er að fara af stað,“ segir Ársæll þegar hann er spurður út í fyrirtækið. „Við höfum náttúrulega bæði víðtæka þekkingu og ákveðum því að setja þetta á stofn til að veita ráðgjöf í skólamálum til sveitarfélaga og skóla – eða hverjum þeim sem koma að skólamálum.“ Ársæll segir einnig að verkefnið hafi lengi verið í bígerð og nú sé komið að því að steypa sér út í djúpu laugina. Ársæll og Gunnhildur giftu sig á meðan þau stunduðu nám saman við Kennaraháskólann. „Við tókum svo sex ár saman í Svíþjóð.“ Þar stunduðu hjónin bæði nám og Ársæll tekur fram að hann hafi einnig kennt í leikskóla þar. Við komuna til Íslands hafa þau ekki slegið slöku við. „Ég var síðan fyrsti framkvæmdastjóri hjá Miðstöð símenntunar og vann við að koma þeirri miðstöð á koppinn,“ segir Ársæll.

Landsbyggðin ólík

Gunnhildur og Ársæll bjuggu lengi vel á landsbyggðinni. Var Ársæll meðal annars aðstoðarskólameistari og svo settur skólameistari Fjölbrautaskóla Norðurlands á Sauðárkróki. Eftir það varð hann svo sveitarstjórnarmaður á Skagafirði í fjögur ár. Hjónin fluttu svo til Borgarness – þar sem Gunnhildur kom meðal annars að uppsetningu frístundaheimilis. Þegar Ársæll er spurður út í helsta muninn á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu segir hann: „Ég þori varla að bera þetta saman. Það er þó töluverður munur á uppeldi á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu. Nálægðin úti á landi er mikið meiri og það er öðruvísi. Ég veit ekki hvort það sé verra eða betra, en það er einfaldlega ólíkt.“

Eftir að þau komu aftur til höfuðborgarinnar hefur einnig verið ýmislegt á döfinni. Ársæll hefur meðal annars veitt menntamálaráðuneytinu ráðgjöf varðandi útgáfu Hvítbókar um menntamál – ásamt því að hafa starfað sem skólameistari bæði í Iðnskólanum í Hafnarfirði og nú síðast við Borgarholtsskóla. Ráðgjöfin sem þau hjónin veita verður með fram starfi og stefna þau að því að hjálpa eins og þau geta skólum, sveitarfélögum og þeim sem hafa áhuga á ráðgjöf varðandi mennta- og frístundamál.