Staða Íslands er, þrátt fyrir það sem fram kemur í fjölmiðlum, ekki verri en margra annarra ríkja sem lent hafa í efnahagskrísum á síðustu árum.

Þetta kom fram í ræðu Pedro Videla, prófessors við IESE Business School, á viðskiptaþingi sem nú stendur yfir.

Videla sagði að í raun væru grunnþættir í íslensku efnahagslífi traustari en í mörgum öðrum ríkjum og því hefðu Íslendingar fulla burði til að komast hratt úr þeirri efnahagskrísu sem nú ríkir hér á landi.

Hann sagði að helstu neikvæðu þættir efnahagshruns kæmu fram í samfélagsþáttum þar sem atvinnuleysi hefði töluvert neikvæð áhrif á einstaklinga. Þess vegna ættu stjórnvöld að einbeita sér að því að lágmarka þann samfélagsskaða sem kann að verða í kjölfar þess.