Stjórnvöld ættu ekki að reyna að „kaupa“ sig út úr efnahagskrísum með því að reyna að örva  hagkerfið með auknum ríkisútgjöldum.

Þetta kom fram í erindi Pedro Videla, prófessor við IESE Business School, á viðskiptaþingi sem nú stendur yfir.

Videla sagði að stjórnvöld ríkja ættu það til að sóa fjármagni í verðlaus verkefni. Hann nefndi sem dæmi að stjórnvöld í Japan væru enn að vinna að því, og eyddu til þess töluverðu fjármagni, að laga göturnar í Tókýó en verkefnið væri mjög dýrt og hugsanlega betur komið í höndum annarra aðila en stjórnvalda.

Þá varaði Videla einnig við skattahækkunum og sagði þær ávallt leiða til minni tekna ríkisins.

Videla sagði í lok erindi síns mögulega hefði verið hægt að koma í veg fyrir bankahrunið hefðu Íslendingar haft evru sem aðal gjaldmiðil. Með því að taka upp evru myndi Íslendingar tryggja sér þrautarvaralánaveitanda.

Hann sagði að valið framundan stæði einfaldlega á milli þess að taka upp evru ella loka hagkerfinu, ekki gengi að hafa opið alþjóðlegt hagkerfi með íslensku krónuna sem aðal gjaldmiðil.