Mikil spenna í bandarískum stjórnmálum þessa stundina. Forkosningar repúblíkana eru haldnar í Florída á þriðjudag en ekki er víst að þá ráðist hver verður forsetaframbjóðandi flokksins.

Sigur Newt Gingrich í Suður Karólínu fyrir viku hleypti meiri hörku í baráttuna. Fylgi hans jókst mikið í könnunum í Flórída og komst hann talsvert yfir aðalmótherja sinn, Mitt Romney.

Í gær kom John McCain fyrrum forsetaframbjóðandi flokksins fram og lýsti yfir eindregnum stuðningi við Romney. Fleiri þungavigtarmenn hafa lýst stuðningi við Romney.

Komst einn fréttaskýrandinn á CNN svo að orði í fyrradag að ef Ginrich yrði forsetaefnið myndi Nancy Pelosi oddviti demókrata í fulltrúadeildinni panta kampavín í kassavís.  John Boehner leiðtogi repúblíkana í deildinni myndi hins vegar fá sér eitthvað rótsterkt því næstu kosningar í fulltrúadeildinni, sem haldar eru á sama tíma og forsetakosningar í nóvember, væru tapaðar.

Nýjasta könnun Reuters/Ipsos bendir til þess að Romney sé að sækja í sér veðrið. Samkvæmt henni fengi hann 41% atkvæða en Gingrich 33% atkvæða í Flórída.

Mitt Romney og Newt Gingrich.
Mitt Romney og Newt Gingrich.
Mitt Romney og Newt Gingrich.