Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna er mættur í Höfða á fund með forseta og utanríkisráðherra Íslands til að ræða viðskiptatengsl ríkjanna.

Hægt er að sjá beina útsendingu á vef Vísi frá heimsóknni, en auk Guðna Th. Jóhannessonar og Elizu Reid forsetafrúar og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra sitja ýmsir frammámenn í íslensku viðskiptalífi á fundinum þar sem ætlunin er að ræða viðskiptatengsl Íslands og Bandaríkjanna.

Í ávarpi Guðna þegar hann tók á móti Pence impraði hann á sögu Höfða, en lofaði að fara ekki í nein smáatriði. Pence talaði í sínu ávarpi um sterk tengsl þjóðanna, efnahagslega og í öryggismálum. Jafnframt þakkaði hann fyrir valið á Höfða fyrir fundinn, enda telji margir staðinn marka upphaf þess að kaldastríðsátökin hafi byrjað að leysast.

Loks bauð Guðni Pence að sitjast í sama sæti og Ronald Reagan Bandaríkjaforseti hafði setið í á fundinum með mikhail gorbachev leiðtoga Sovíetríkjanna og settist sjálfur í sama sæti og hann hafði setið í. Að loknum myndatökum og ávörpunum hófust eiginleg fundarhöldin, þegar klukkan var rétt tólf mínútur gengin í þrjú.

Jafnframt munu frammámenn í bandarísku viðskiptalífi sitja fundinn en meðal þeirra íslensku má nefna:

  • Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel
  • Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka
  • Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair
  • Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis
  • Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
  • Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs
  • Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins