*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 4. september 2019 13:57

Pence mætir í Höfða

Varaforseti Bandaríkjanna ræddi um sögulegt mikilvægi Höfða þegar hann kom til fundar við íslenska ráðamenn.

Ritstjórn
Mike Pence var kjörinn varaforseti Bandaríkjanna samhliða kjöri Donald Trump sem forseta.
epa

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna er mættur í Höfða á fund með forseta og utanríkisráðherra Íslands til að ræða viðskiptatengsl ríkjanna.

Hægt er að sjá beina útsendingu á vef Vísi frá heimsóknni, en auk Guðna Th. Jóhannessonar og Elizu Reid forsetafrúar og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra sitja ýmsir frammámenn í íslensku viðskiptalífi á fundinum þar sem ætlunin er að ræða viðskiptatengsl Íslands og Bandaríkjanna.

Í ávarpi Guðna þegar hann tók á móti Pence impraði hann á sögu Höfða, en lofaði að fara ekki í nein smáatriði. Pence talaði í sínu ávarpi um sterk tengsl þjóðanna, efnahagslega og í öryggismálum. Jafnframt þakkaði hann fyrir valið á Höfða fyrir fundinn, enda telji margir staðinn marka upphaf þess að kaldastríðsátökin hafi byrjað að leysast.

Loks bauð Guðni Pence að sitjast í sama sæti og Ronald Reagan Bandaríkjaforseti hafði setið í á fundinum með mikhail gorbachev leiðtoga Sovíetríkjanna og settist sjálfur í sama sæti og hann hafði setið í. Að loknum myndatökum og ávörpunum hófust eiginleg fundarhöldin, þegar klukkan var rétt tólf mínútur gengin í þrjú.

Jafnframt munu frammámenn í bandarísku viðskiptalífi sitja fundinn en meðal þeirra íslensku má nefna:

  • Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel
  • Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka
  • Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair
  • Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis
  • Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
  • Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs
  • Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins
Stikkorð: Höfði Mike Pence