Ákvörðun stjórnvalda á Indlandi um að banna notkun stærri seðla á einni nóttu mun valda meiri skaða en ávinningi segir Kaushik Basu, fyrrum aðalhagfræðingur Alþjóðabankans.

Í síðustu viku bannaði ríkisstjórn Modi forsætisráðherra landsins notkun 500 og 1.000 rupee seðla í landinu, en þeir eru að andvirði um 880 og tæplega 1.800 króna og jafngilda meira en fjórum fimmtu hlutum af öllum gjaldeyri í landinu.

Gert til að taka á spillingu og svarta hagkerfinu

Rök ríkisstjórnarinnar fyrir ákvörðuninni var að með þessu væri hægt að taka á spillingu og ólöglegu fjármagni sem væri í umferð. Vonast ríkisstjórnin til að fá með þessu fé aftur inn í löglega hagkerfið sem jafngildi milljörðum dala, en Basu segir aðgerðina valda meiri skaða en ágóða.

Miklar raðir hafa myndast við banka og hraðbanka, þar sem fólk hefur í öngum sínum reynt að skipta út seðlunum og ekki hefur hjálpað að hámark er á úttektum í minni seðlum. Samt sem áður hafa hraðbankar tæmst og skortur virðist vera á fjármagni í landinu.

Veldur miklum samdrætti í hagkerfinu

Kaushik Basu, var aðalefnahagsráðgjafi fyrri ríkisstjórnar Congress flokksins í landinu, en hann hefur lengst af haft völdin í landinu.

Segir hann ólöglegt fé úr svarta hagkerfinu vera fljótt að ná sér á strik á ný en kostnaðurinn af þessu eina útspili verði mikill. Segir hann mögulegt að eina sem þetta geri verði að draga úr heildarpeningamagninu, sem komi út sem samdráttur í hagkerfinu.