Hrein peningaleg eign hins opinbera, það er peningaleg eign umfram skuldir, var neikvæð um 615 milljarða króna í árslok 2009, eða sem svarar 41% af landsframleiðslu. Hún hafði versnað um 322 milljarða króna milli ára eða um ríflega 22% af landsframleiðslu.

Peningalegar eignir hins opinbera námu 1.226 milljörðum króna í árslok 2009 (81.7% af landsframleiðslu) og heildarskuldir 1.841 milljarði króna (122,7% af landsframleiðslu).

Í samantekt Hagstofunnar kemur fram að áætlað er að tekjuafkoma hins opinbera hafi verið neikvæð um 137 milljarða króna árið 2009, eða sem nemur 9,1% af landsframleiðslu og 21,5% af tekjum þess. Til samanburðar var tekjuafkoman neikvæð um 13,6% af landsframleiðslu 2008 en jákvæð um 5,4% árið 2007. Þessi óhagstæða þróun á árinu 2009 skýrist meðal annars af 31 milljarðs króna minni skatttekjum en árið áður á sama tíma og vaxtagjöldin jukust um ríflega 52 milljarða króna og félagslegar tilfærslur til heimila um 33 milljarða króna, meðal annars vegna aukins atvinnuleysis. Þá jókst samneysla hins opinbera um ríflega 24 milljarða.